154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alltaf áhugavert að hlusta á þessa yfirferð. Ég velti dálítið fyrir mér: Ef lögum um almannatryggingar hefði verið framfylgt frá 1997 varðandi launaþróun o.s.frv., hver væri staðan í dag? Hvernig væri pólitíkin í dag ef lágmarksframfærsla væri kannski viðunandi eða nálægt því alla vega? Það er áhugavert að íhuga það þar sem munar alveg rúmlega 60% á því sem ætti að vera og því sem er, sem er eiginlega stórkostlegt.

Þetta er hópur fólks sem er ekki með verkfallsrétt og getur ekki farið og krafist hærri launa eins og allir aðrir og þess vegna er launaþróun einmitt sett inn, það sé bundið inn í lögbundna hækkun, í rauninni á nákvæmlega sama hátt og með þingmenn. Þingmenn eru ekki með verkfallsrétt. Ég veit ekki nema að það yrði betrumbót ef við færum í verkfall og gerðum ekki neitt í einhvern tíma, ég veit það ekki. En það er mjög vel skilgreint í lögum hvernig á að uppreikna laun þingmanna og annarra kjörinna fulltrúa samkvæmt launaþróun en í lögum um almannatryggingar er launaþróun ekki skilgreind. Það er mjög áhugavert að einmitt hópurinn sem er með miklu hærri laun sé með þetta vel skilgreint og fái örugglega hærri upphæðina, því launaþróunin er almennt séð hærri heldur en vísitala neysluverðs, en þau sem eru með lægri upphæð í greiðslur fá bara vísitölu neysluverðs. Ég skil eiginlega ekki, ef það á alltaf að bíða eftir réttlætinu, af hverju við erum ekki búin að afgreiða í gegnum þingið að hafa alla vega sömu viðmið hjá þessum tveimur hópum.